Frumvarp um jafnlaunavottun samþykkt

08.06.2017 14:51

Á dögunum var frumvarp félagsmálaráðherra, Þorsteins Víglundssonar, samþykkt á Alþingi. Frumvarpið kveður á um lögfestingu skyldu til jafnlaunavottunar meðal fyrirtækja og stofnana með 25 eða fleiri starfsmenn en meginmarkmið þess er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Málið tengist starfi Starfsmenntar með beinum hætti þar sem setrinu var falið að halda utan um námskeið til að styðja við og auðvelda innleiðingu jafnlaunastaðalsins hjá stofnunum og fyrirtækjum. Stjórnvöld og aðilar á vinnumarkaði sammæltust um það hlutverk setursins og hvötttu til samstarfs við fjölmarga fræðslu- og mannauðssjóði, sem greiða leið sinna félagsmanna á námskeiðin. 

Undanfarin misseri hefur Starfsmennt því boðið upp á hagnýt námskeið þar sem farið er yfir staðalinn, innleiðingarferlið og allt sem því viðkemur. Um er að ræða fjórar vinnustofur, þrjár klukkustundir hver, þar sem lögð er áhersla á praktíska nálgun og farið í gegnum vinnuskjöl og ýmis verkfæri sem auðvelda innleiðingu staðalsins. 

  1. Kynning á jafnlaunastaðli og inngangur
  2. Starfaflokkun
  3. Launagreining
  4. Gæðastjórnun og skjölun

Smelltu hér til að fara á vefgátt jafnlaunastaðals en þar er skráning og yfirlit um næstu námskeið. 

Hér eru upplýsingar um jafnlaunastaðalinn á vef velferðarráðuneytisins og Staðlaráðs Íslands.

Til baka
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábending þín er móttekin

Afhverju ekki?