Ávinningurinn af vel heppnuðu starfsmannasamtali er margvíslegur en felur helst í sér mikilvæga miðlun upplýsinga milli starfsmanns og stjórnanda. Starfsmaður fær uppbyggilegar upplýsingar um hvernig viðkomandi er að standa sig í starfi, gefist getur tækifæri til að tjá sig um starfsumhverfið og samskipti við aðra starfsmenn, viðkomandi getur gert sér betur grein fyrir væntingum stjórnanda og bætt skilning sinn á eigin starfi og starfsþróun. Þetta skiptir máli því að nútímasamfélagið sem við lifum í breytist mjög hratt og verða starfsmenn að geta tileinkað sér nýja hæfni og lært samhliða því að starfa.
Viðhorf þátttakenda hefur mikil áhrif á árangur samtalsins og því er mikilvægt að draga úr neikvæðum áhrifum með uppbyggilegum samskiptum um ferlið. Það má segja að þú sem starfsmaður og þinn næsti yfirmaður „eigi“ starfsmannasamtalið saman. Það er að segja, ef annar aðilinn nálgast verkefnið ekki af heilum hug þá hefur það veruleg áhrif á niðurstöðu samtalsins og hvernig mun ganga að fylgja því eftir. Gagnlegt er að koma ábendingum á framfæri áður en samtalið fer fram og getur stuttur undirbúningsfundur komið sér vel ef grunur leikur á að framkvæmd samtalsins geti reynst erfið. Undirbúningsfundinn er hægt að halda með hópi starfsmanna ef slíkt hentar betur.
Sú áætlun og markmið sem sett eru upp í starfsmannasamtalinu verða að vera í takti við heildarstefnu og starfsáætlun stofnunar. Mikilvægt er að horfa fram á veginn í starfsmannasamtalinu og taka fyrir verkefni og mál sem tilheyra nútíð og framtíð því það þjónar litlu að eyða miklum tíma í að velta fyrir sér hvað sé liðið og skoða um of gömul vandamál. Það er líklegra til árangurs að skoða verkefnin sem eru í gangi núna og næstu misseri og setja markmið sem hafa áhrif á frammistöðu þína í framtíðinni. Markmið sem eru raunhæf og tengjast stefnu stofnunarinnar eru líkleg til að hafa áhrif á líðan þína í starfi og tengsla þinna við vinnuumhverfið og hjálpa þér að ná árangri í starfi.
Smelltu hérna til að skoða námsvísinn okkar.