Fólk eyðir miklum hluta ævi sinnar í vinnunni og þess vegna er brýnt að hugað sé að almennri vellíðan og heilsu starfsfólks enda hafa þessir þættir áhrif á fjarvistir og frammistöðu. Stjórnendur slá tóninn og skapa rammann fyrir andann á vinnustaðnum eða vinnustaðamenninguna en það bera hins vegar allir ábyrgð á að samskipti séu heilbrigð, að öryggis sé gætt í hvívetna og að öllum starfsmönnum finnist þeir metnir að verðleikum.

Ánægja í starfi skapast þegar starfsfólk veit hvað það á að gera (móttaka nýliða, skýrar starfslýsingar, skýrt hlutverk), veit hvernig það stendur sig (starfsmannasamtöl, endurgjöf á frammistöðu), passar inn í vinnustaðamenninguna og fær tækifæri til að þroskast og læra meira (námskeið, lestur, fylgjast með öðrum, verkefnahópar, lærdómsríkt umhverfi o.s.frv.)

Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar fjallað er um starfsánægju og vellíðan (lauslega þýtt af: https://arbejdsglaedenu.dk): 

  • Þar sem starfsfólki líður vel getur framleiðnin orðið allt að tvöföld á við aðra vinnustaði.
  • Starfsánægja og vellíðan á vinnustaðnum er ein af þremur mikilvægustu forsendum fyrir lífsgleði.
  • Starfsánægja er besta forvörnin gegn stressi.
  • Starfsánægja og vellíðan á vinnustaðnum getur dregið umtalsvert úr veikindafjarvistum og starfsmannaveltu.
  • Ein algengasta ástæðan fyrir dvínandi starfsánægju eru neikvæðar athugasemdir, skortur á hrósi og viðurkenningu ásamt lítilli hjálp og stuðningi frá næsta yfirmanni.
  • Starfsánægja og vellíðan eru á ábyrgð hvers og eins. Ekki yfirmannsins, samstarfsfélaganna eða samfélagsins. 
  • Yfirmaðurinn og vinnustaðurinn bera ábyrgð á að setja umgjörðina fyrir starfsánægju og vellíðan á vinnustaðnum.
  • Jákvæð vinnustaðamenning og starfsánægja eru grundvallaðar í stjórnun vinnustaðarins, starfsaðferðum, áætlunum og skipuriti og líka því sem við gerum hér og nú.
  • Starfsánægja fæst ekki með hærri launum, bónusum, titlum eða fríðindum. Starfsánægja kemur af tvennu: Árangri: Að vinna gott starf sem maður getur verið stoltur af. Samskiptum: Að vera í góðum og jákvæðum samskiptum við vinnufélagana.
  • Starfsánægja verður ekki til af sjálfu sér heldur verður sífellt að huga að henni, bæði af hálfu starfsmanna og stjórnenda. 

Margt sem hefur áhrif
Með starfsánægju er átt við viðhorf starfsfólks til starfa sinna. Starfsánægja hefur áhrif á starfshegðun og þar með árangur stofnunar. Hún er samsett úr þáttum sem tengjast beint vinnustaðnum eins og staðsetningu í skipuriti, verkaskiptingu, starfsaðstæðum, sjálfstæði í starfi, starfsöryggi, samskiptum við næsta stjórnanda, samstarfsfólks og viðskiptavini. Persónulegir þættir hafa einnig áhrif á ánægju fólks í starfi eins og fjölskylduaðstæður, áhugamál, trúmál og stjórnmálaskoðanir. 

Þekkja tilganginn
Stjórnendur geta gert ýmislegt til að auka starfsánægju t.d. að skýra tilganginn með starfsemi stofnunarinnar og hvernig verkefni starfsmanna styðja við þenan grunn. Starfsmaður sem skilur hvernig starf hans tengist heildarstefnu stofnunarinnar upplifir meiri hvatningu til að vanda til verka. 

Kunna til verka
Einnig er mikilvægt að huga að stöðugri hæfniþróun því starfsmaður, sem getur leyst verkefnin sín, er mun öruggari um sjálfan sig heldur en sá sem á í erfileikum með að leysa þau. Aukin færni við að leysa úr daglegum vandamálum og klára verkin eykur starfsánægju starfsmanna.

Jafnvægi væntinganna
Tilurð starfsánægju á sér tvær hliðar. Annars vegar er um að ræða væntingar og kröfur starfsfólks til starfa sinna og framlags vinnuveitanda og hins vegar væntingar stofnana um vinnuframlag, hollustu og frammistöðu. Þegar jafnvægi skapast á milli hagsmuna stofnunar og starfsfólks hafa skapast skilyrði fyrir viðvarandi starfsánægju. 

Vinnustaðamenning
Með menningu er átt við sameiginleg gildi, viðhorf og hegðun sem eru við lýði innan vinnustaðar. Menningin getur þannig verið eins og stjórntæki sem segir til um hvað telst til æskilegrar hegðunar og hvað til óæskilegrar hegðunar. Oft á tíðum er um óskrifaðar reglur að ræða, sem hafa mótast yfir tíma og fest sig í sessi.  Menningin skapar viðmið fyrir starfsfólk um hvað leyfist og hvað leyfist ekki og hún hefur áhrif á þætti eins og stjórnunarstíl, hvernig breytingar eru innleiddar, stefnu, stjórnun þekkingar, símenntun, hollustu og samskipti.

Veldu þér viðhorf, það gerir það enginn fyrir þig!
Eigið viðhorf og hegðun skipta gríðarlega miklu máli og þar skiptir engu hvort maður er starfmaður eða stjórnandi. Það er vert að muna að jákvætt viðhorf til vinnunnar og uppbyggileg samskipti smita út frá sér og eru miklu skemmtilegri heldur en neikvætt viðhorf og baktal. Þess vegna er það sem þú gerir, hvernig þú hagar samskiptunum og hvað þú leggur í þau, það sem er með í að byggja upp jákvæða vinnustaðamenningu og uppbyggilegt andrúmsloft.