Einelti er alvarlegt vandamál á vinnustöðum sem stjórnendum ber að taka á. Afleiðingar þess eru ekki aðeins slæmar fyrir þolendurna heldur einnig fyrir vinnustaðinn sjálfan. Einelti getur haft margvísleg neikvæð áhrif á líðan starfsmanna, starfsánægju, metnað, fjarvistir og félagslegt starfsumhverfi. Það getur því valdið miklu tjóni bæði fjárhagslega og félagslega.
Til eru ýmsar skilgreiningar á einelti sem allar eiga þó sameiginlegt að vísa til neikvæðrar hegðunar sem beinist að ákveðnum aðila eða aðilum á vinnustað. Í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi vinnustöðum, nr. 1009/2015, er einelti skilgreint þannig:
Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Minningarsjóður Dr. Brynju Bragadóttur og Landsvirkjun unnu saman að gerð nokkurra myndbanda um einelti og hvernig hægt er að sporna við því á vinnustöðum.
- Formáli - um myndböndin
- Skilgreining eineltis og birtingarmynd
- Áhrif eineltis, mismunandi hlutverk og æskilegt viðbragð
- Úrvinnsla eineltismála og mikilvægi góðrar menningar
Á vef Vinnueftirlitsins má finna leiðbeiningar og fræðsluefni sem nýst geta í forvörnum og viðbrögðum við einelti, áreitni eða öðru ofbeldi á vinnustöðum.