Sterk hefð hefur skapast hér á landi fyrir reglubundnum starfsmannasamtölum. Algengast er að þau fari fram árlega með formlegum hætti þar sem stjórnandi og starfsmaður taka frá tíma til að fara yfir árangur liðins árs, markmið næsta árs og líðan í starfi. Starfsmennt mælir með að stjórnendur og starfsmenn gefi sér tíma a.m.k. einu sinn á ári til að fara markvisst yfir tiltekin atriði og þá með aðstoð gátlista. Slíkt árlegt samtal má þó aldrei koma í veg fyrir daglegar samræður og umræðum um hvað sé vel gert og hvað betur megi fara.
Hver er helsti ávinningur formlegra starfsmannasamtala?
Helsti ávinningurinn er að bæði stjórnandi og starfsmaður gefa sér tíma til að miðla upplýsingum og ræða um verkefni, starfsumhverfi og líðan í starfi. Slíkt gefur stjórnanda mikilvæga innsýn inn í daglegt líf starfsmanna og er með í að skapa nauðsynlega yfirsýn yfir verkefni og þá hæfni sem er nauðsynleg. Starfmaður hefur þarna tækifæri til að ræða nánar um verkefni sín, fá upplýsingar um hver stefna stofnunar er og viðra hugmyndir að þróun eigin hæfni. Þannig getur vel heppnað samtal skilað:
- Uppbyggilegum upplýsingum um hvernig viðkomandi er að standa sig í starfi.
- Tækifæri til tjáskipta um starfsumhverfið og líðan í starfi.
- Yfirsýn fyrir viðkomandi til að gera sér betri grein fyrir væntingum í starfi.
- Bættum skilningi á breytingum, fræðsluþörfum og starfsþróun.
Stjórnendur bera formlega ábyrgð á framkvæmdinni, þ.e.a.s. að boða til samtalsins, finna staðsetningu sem hentar, sjá til þess að undirbúningsgögn séu tilbúin og tiltæk og sinna sínum hluta undirbúnings. Hvernig til tekst er sameiginlega á ábyrgð stjórnanda og starfsmanns.
Nokkur hagnýt ráð fyrir starfsmannasamtalið
- Undirbúðu þig vel hvort sem þú ert stjórnandi eða starfsmaður. Góður undirbúningur skapar grundvöll fyrir sameiginlegan skilning á hvað eigi að ræða í samtalinu.
- Taktu frá tíma bæði til að undirbúa samtalið, í samtalið sjálft og eins til að vinna úr því þ.e. fara yfir hvað hafi verið rætt og hvernig þú ætlar að halda áfram t.d. hvaða hæfni á að leggja áherslu á að þróa.
- Hafðu alltaf hugfast að meginmarkmiðið er að ræða saman um leiðir til úrbóta þ.e. að horfa fram á við en ekki að dvelja í fortíðinni.