Reynsla sýslumannsembættanna
Sýslumenn eru meðal þeirra stofnana sem hafa nýtt sér Ráðgjafa að láni og hefur samstarfið gengið vonum framar að sögn Bjarneyjar Ingu Sigurðardóttur, ábyrgðaraðila fræðslumála hjá sýslumönnum sem Fréttablaðið tók viðtal við í síðasta mánuði. „Framtíðarsýn Sýslumanna er að veita framúrskarandi þjónustu óháð búsetu og staðsetningu hvar og hvenær sem er og hafa Sýslumenn sett sér það markmið að vera leiðandi í rafrænni þjónustu. Sú vegferð þýðir það að við þurfum að aðlaga okkur breyttum tímum.“
Þrátt fyrir að embættin séu níu talsins vinnur starfsfólk þétt saman að hennar sögn, enda vinnur það að stórum hluta að sömu verkefnunum. „Við vildum veita starfsfólkinu okkar aukinn stuðning á þessum tímamótum með því að bjóða upp á samræmda fræðslu fyrir alla, óháð stéttarfélagi.“ Starfshópur var skipaður með fulltrúum nokkurra embætta sem fór að skoða möguleikana sem voru í boði. „Okkur leist vel á þjónustuna Ráðgjafi að láni hjá Starfsmennt. Að auki höfðu nokkur embætti þegar nýtt sér þjónustuna, jafnvel oftar en einu sinni og gefið henni bestu meðmæli. Við settum okkur í samband við þau og boltinn fór strax að rúlla.“
Markmið Sýslumanna var fyrst og fremst að að kortleggja fræðsluþörfina innan embættanna og setja markmið um hvað væri í forgangi. „Við vildum byggja á þörfum starfsmanna og vera í samræmi við nýjar áskoranir vegna aukinnar áherslu á stafræna þjónustu. Við höfðum ekki öll verkfærin til þess, en Starfsmennt var með þau.“
Í lok ráðgjafarverkefnisins fengu stjórnendur afhenta kynningu og starfsþróunaráætlun fyrir alla starfsmenn embættanna til að vinna með áfram. „Inni á síðu Starfsmenntar er starfsmannagátt fyrir embættin, þar sem skráning á námskeið fer fram. Árinu er skipt í haust- og vorönn og eru námskeiðin skipulögð í samræmi við áherslur starfsþróunaráætlunar með ráðgjöfum Starfsmenntar. Við höfum lokið fyrstu önninni sem fjallaði um rafræn samskipti. Í gegnum þetta höfum við haldið áfram að hitta ráðgjafa Starfsmenntar og vel er haldið utan um okkur.“
Hún segist óhikað geta mælt með þjónustunni. „Þegar við mynduðum teymið stóðum við frammi fyrir því að gera námskrá fyrir níu embætti, með skrifstofur á 27 stöðum um land allt. Það er erfitt að móta frá grunni fræðslustefnu og námsskrá sem nær utan um heildina. Starfsmennt sá um framkvæmd gagnasöfnunar og úrvinnslu þannig að sýslumenn fengu tól í hendurnar sem strax var hægt að vinna með. Virkilega farsælt samstarf sem við höfum átt við Starfsmennt sem við komum til með að byggja á til framtíðar.“
Frekari upplýsingar um þjónustu Ráðgjafa að láni
(Brot úr umfjöllun Fréttablaðsins, 16.janúar 2023)