Fræðsla vegna breytinga á skipulagi vinnutíma
Samstarfsaðilar |
Samningsaðilar, samstarf um betri vinnutíma |
Verktími |
2020-2021 |
Starfsmennt kemur að fræðsluátaki um betri vinnutíma í dag- og vaktavinnu. Verkefnið er samstarfsverkefni allra opinberra launagreiðenda annars vegar, þ.e. ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga og ASÍ, BHM, BSRB og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hins vegar og byggir á breytingum á kjarasamningum aðila. Um er að ræða mestu breytingar á vinnutíma í vaktavinnu í tæplega 50 ár.
Nánari upplýsingar er að finna á www.betrivinnutími.is og á fésbókarsíðunni Betri vinnutími í vaktavinnu.
Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífs
Samstarfsaðilar |
Fræðslumiðstöð atvinnulífs/Fræðslusjóður, Vinnumálastofnun, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun |
Verktími |
2019-2021 |
Starfsmennt tekur þátt í þróunarverkefni með Fræðslumiðstöð atvinnulífs um raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífs og varðar starf fulltrúa í opinbera geiranum. Verkefnið tekur til raunfærnimats í fjórum störfum, starf í verslun, starf við móttöku á gistihúsum og starf við þjónustu í sal. Þau viðmið sem notuð eru í matinu byggja á hæfnigreiningum og viðkomandi starfaprófíl, sem er niðurstaða hæfnigreiningar. Þannig inniheldur starfaprófill:
- Stutta skilgreiningu á starfinu.
- Lista yfir helstu viðfangsefni starfsins.
- Önnur mikilvæg atriði (ef við á).
- Listi yfir þá hæfniþætti sem mikilvægastir eru til að starfið sé innt af hendi á árangursríkan hátt ásamt lýsingu á hæfninni á viðeigandi þrepi.
Starfaprófíll dregur því fram um hvaða starf er að ræða og hvaða hæfni þarf til að sinna því. Starfaprófíll sem liggur til grundvallar mati á raunfærni í verkefni Starfsmenntar er starfaprófíll sérhæfðs þjónustufulltrúa. Matsferlið fer fram á vinnustað og eru samstarfsstofnanir StarfsmenntarVinnumálastofnun útibú á Skagaströnd og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun útibú á Sauðárkróki.
Ítarefni
Mat á raunfærni byggir á þeirri hugmyndafræði að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins. Hér á vefnum má finna upplýsingar um raunfærnimat og þau verkefni sem eru í gangi veturinn 2019-2020 hjá Starfsmennt og öðrum fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum hér á landi.
Þann 18. september 2019 stóðu Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og NVL, norrænt tengslanet um nám fullorðinna, fyrir málstofu um raunfærnimat í atvinnulífinu. Til málstofunnar var boðið fulltrúum SA, ASÍ, BSRB og þeirra fyrirtækja og stofnana sem taka þátt í verkefninu Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins sem Fræðslusjóður fjármagnar. Málstofan var haldin í tengslum við fund NVL netsins um raunfærnimat.
Diplómanám í opinberri stjórnsýslu
Samstarfsaðilar |
Háskólinn á Bifröst, Sameyki, Kjara- og mannauðssýsla ríkisins |
Verktími |
2018-2020 |
Verkefnið fólst í að þróa diplómanám á fagháskólastigi og styðja við þátttakendur í tilraunakennslu námsins. Það var liður í úrvinnslu bókunar með kjarasamningi Sameykis og fjármálaráðherra um að fjölga menntunar- og starfsþróunarúrræðum fyrir ríkisstarfsmenn.
Diplómanámið hófst haustið 2018 og var þetta í fyrsta sinn sem boðið var upp á nám í opinberri stjórnsýslu á fagháskólastigi. Námið var þróað af Fræðslusetrinu Starfsmennt og Háskólanum á Bifröst í samvinnu við Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu og Kjara- og mannauðssýslu fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Það voru 28 starfsmenn frá 23 stofnunum ríkisins sem hófu nám haustið 2018 og afar ánægjulegt að langflestir náðu að fara alla leið, en það getur verið átak að fara í nám og samræma við vinnu og fjölskyldulíf.
Áhersla var lögð á að nemendur í tilraunahópnum tækju námið á hálfum hraða til að dreifa álaginu, þannig að 60 einingarnar dreifðust á tvö ár.
Ítarefni
Diplómanámið er fullgilt 60 ECTS eininga diplómanám á háskólastigi og nýtast námsþættirnir opinberum starfsmönnum til að dýpka skilning á samhengi opinbers rekstrar og öðlast aukna innsýn í stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Diplómanámið getur nýst þátttakendum sem valgrein inn í annað háskólanám á BA/BS stigi.
Markmið námsins er að nemendur kynnist lagaumhverfi ríkisins og stofnana þess, öðlist skilning á pólitísku gangverki ríkisvaldsins og fái hagnýta þjálfun í margvíslegri rekstrarfærni. Námið er sérstaklega hannað með þarfir ríkisins og opinberra starfsmanna í huga.
Nánari upplýsingar um fyrirkomulag námsins eru á vef Háskólans á Bifröst.
Rafrænn Fangavarðaskóli
Samstarfsaðilar |
Fangelsismálastofnun, Sameyki, Kjara- og mannauðssýsla fjármála- og efnahagsráðuneytis |
Verktími |
2018-2019 |
Haustið 2018 var hrint úr vör námi skv. námskrá Fangavarðaskólans fyrir tiltekinn hóp starfsmanna Fangelsismálastofnunar sem ekki hafði gefist kostur á að ljúka þessu námi fyrr. Nýbreytnin fólst í því að allt bóklegt nám var sett í rafrænt umhverfi en verklegt nám var áfram kennt í staðnámi. Verkefnið var liður í úrvinnslu bókunar með kjarasamningi SFR og ríkisins frá 2015. Þátttakendur luku allir náminu á fullnægjandi hátt og voru útskrifaðir þann 24. maí árið 2019.
Ítarefni
Raunfærnimat á móti viðmiðum Háskólabrúar Keilis
Samstarfsaðilar: |
Fræðslumiðstöð atvinnulífs/Fræðslusjóður, Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs |
Verktími |
2018-2019 |
Starfsmennt þróaði og bauð upp á raunfærnimat á móti kröfum Háskólabrúar Keilis og var það liður í að mæta þeim hópi fólks á vinnumarkaði sem ekki hefur lokið formlegu framhaldsskólanámi og hafði það markmið að stytta leið þeirra til lokaprófs af Háskólabrú Keilis. Verkefnið hlaut styrk úr Fræðslusjóði, sjóði framhaldsfræðslunnar, og var það unnið í samvinnu við Fræðslumiðstöð atvinnulífs (FA) og aðferðafræði FA um framkvæmd raunfærnimats fylgt í þaula.
Inntökuskilyrði í raunfærnimatið voru þau sömu og inntökuskilyrði Háskólabrúar, að vera 23 ára eða eldri, með samtals þriggja ára almenna starfsreynslu og hafa lokið að lágmarki 117 framhaldsskólaeiningum (70 eldri einingar), þar af einingum í grunnfögunum ensku, íslensku og stærðfræði.
Verkefnið var kynnt og auglýst í janúar og september 2018 og í kjölfarið voru haldnir opnir kynningarfundir í húsnæði Starfsmenntar. Verkefnastjóri kynnti markmið og framkvæmd raunfærnimatsins og náms- og starfsráðgjafi frá Keili kynnti Háskólabrúna og möguleika þátttakenda að loknu raunfærnimati. Matsferlið sjálft hófst svo í kjölfar kynningarfunda. Hópurinn sem tók þátt í verkefninu á vorönn lauk því í júní en hópurinn sem tók þátt í verkefninu á haustönn lauk því í byrjun janúar 2019.
Alls tóku ellefu einstaklingar þátt í raunfærnimatinu, allt konur og var meðalaldur þeirra 50 ár. Í heildina fóru fram 26 matssamtöl og stóðust þátttakendur alls 150 feiningar. Flestar metnar feiningar á einstakling voru 24 en sem dæmi má nefna að félagsvísinda- og lagadeild Háskólabrúar Keilis telur alls 73 feiningar.
Ítarefni
Mat á raunfærni byggir á þeirri hugmyndafræði að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins. Nánari upplýsingar um hugmyndafræði og aðferðafræði raunfærnimats má finna á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífs og í október 2019 birtist grein í Gátt, veftímariti fullorðinsfræðslunnar, um raunfærnimat á móti viðmiðum Háskólabrúar Keilis.